Forystuhlutverk Íslenskrar erfðagreiningar á sviði mannerfðafræði er staðfest á nýjum lista yfir áhrifamestu vísindamenn samtímans sem Thomson Reuters upplýsingaveitan hefur birt ( 2014 The World’s Most Influential Scientific Minds ). Tíu starfsmenn fyrirtækisins eru þar í hópi þeirra 200 vísindamanna sem mest er vitnað til á sviði rannsókna í sameindalíffræði og erfðafræði á árunum 2002 til 2012. Aðeins Bandaríkin og Bretland eiga fleiri fulltrúa i þeim flokki.
Vísindamennirnir frá Íslenskri erfðagreiningu, sem eru á lista Thomson Reuters eru Kári Stefánsson, Unnur Þorsteinsdóttir, Augustine Kong, Daníel Guðbjartsson, G. Bragi Walters, Guðmar Þorleifsson, Hreinn Stefánsson, Jeffrey Gulcher, Patrick Sulem og Valgerður Steinþórsdóttir.
Á lista Thomson Reuters (http://highlycited.com/) sem skipt er í 21 svið innan raun- og félagsvísinda, eru þeir ríflega 3200 vísindamenn sem eiga flestar birtingar meðal þess eina hundraðshluta vísindagreina sem mest er vitnað til á hverju þessara sviða (highly cited papers) á útgáfuári.
Á sviði sameindalíffræði og erfðafræði eru um 200 manns á listanum. Þar eiga Bandaríkin 104 nöfn, Bretland 45, Íslensk erfðagreining 10, Þýskaland 7 og Holland 5. Sé litið til Norðurlanda má sjá að Finnland er með sex nöfn á listanum, Danmörk fjögur og Svíþjóð eitt en Noregur ekkert.
Skýrslan frá Thomson Reuters sýnir einnig að erfðafræðirannsóknir eru það svið sem einna mesta grósku hefur sýnt á undanförnum árum, sé miðað við fjölda tilvitnana í birtar greinar. Sérstaklega voru athugaðar greinar sem voru í efsta tíunda hluta úr prósenti þeirra sem mest var vísað til á árunum 2012 og 2013 (hot papers). Af þeim 17 höfundum sem flestar greinar áttu í þeim flokki, stunduðu 12 rannsóknir í erfðafræði.
Grein: Af vefsíðu Háskóla Íslands:
Frétt á mbl.is: „Í hópi fremstu vísindamanna heims“
Frétt á ruv.is: Íslenskir vísindamenn á áhrifalista