ALZHEIMER
Alzheimersjúkdómur (Alzheimer’s disease) er ólæknandi hrörnunarsjúkdómur í heila sem stafar af dauða heilafruma. Einkenni sjúkdómsins koma oftast fram á efri árum en aldur og erfðaþættir valda mestu um áhættu á að fá hann.
Algengi og einkenni
Með hækkandi lífaldri þjóða eykst tíðni Alzheimers og er hann ásamt öðrum minnissjúkdómum ein helsta byrði á heilbrigðisþjónustu um víða veröld.
Talið er að um 5 – 7% fólks 65 ára og eldra þjáist af sjúkdómnum. Fyrstu einkenni Alzheimers geta verið öryggisleysi, kvíði og þunglyndi samfara hægt vaxandi minnisleysi. Minnistap eitt og sér nægir hinsvegar ekki til að staðfesta greiningu hans, heldur verður önnur vitræn geta, s.s. mál, verklag, ratvísi, skynjun eða dómgreind, einnig að vera skert að einhverju marki.
Þrátt fyrir aukinn skilning á eðli og þróun Alzheimersjúkdóms eru engin meðferðarúrræði til sem slá að heitið getur á framvindu hans. Við lyfjaþróun er leitað þrepa, svokallaðra lyfjamarka, í efnaskiptum líkamans þar sem lyf geta haft áhrif á starfsemi líkamsfrumna og unnið gegn sjúkdómum.
Rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar
Með rannsóknum sínum leitar Íslensk erfðagreining (ÍE) lyfjamarka með því að finna gen (erfðavísa) sem áhrif hafa á gang sjúkdóma. Gen ákvarða gerð og myndun prótína (eggjahvítuefna). Prótín stýra starfsemi frumna líkamans og eru því lyfjamörk. ÍE hefur um langt árabil leitað lyfjamarka sem gætu nýst til að þróa lyf gegn Alzheimer. Sú vinna hefur aukið þekkingu á orsökum og framvindu hans. Í samstarfi ÍE og öldrunarlækna á Landspítalanum, Jóns Snædal, Pálma V. Jónssonar og Sigurbjörns Björnssonar, hefur á þriðja þúsund Alzheimersjúklinga tekið þátt í rannsóknum á erfðum sjúkdómsins. Árið 2011 birtu vísindamenn ÍE og samstarfsmenn þeirra niðurstöður úr fjölþjóðarannsókn sem benti á nokkrar algengar breytingar á erfðaefni sem voru tengdar aukinni áhættu á Alzheimer og beindu athyglinni að lífefnaferlum sem gætu verið lyfjamörk (1).
Verðlaun bandarísku Alzheimersamtakanna
Árið 2012 skýrðu vísindamenn ÍE síðan frá rannsókn þar sem þeir fundu stökkbreytingu sem verndaði gegn sjúkdómnum (2). Einstaklingar sem bera hana eru fimm sinnum ólíklegri en einstaklingar úr viðmiðunarhópi til að greinast með Alzheimer. Breytingin var í geni sem vitað var fyrir að tengist þekktum efnaferlum í heilavef Alzheimersjúklinga og lyfjaframleiðendur höfðu beint sjónum að við rannsóknir sínar. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli lyfjafyrirtækja og vísindastofnana um allan heim og staðfestu enn frekar að prótín þessa gens gæti verið áhrifaríkt lyfjamark. Mikilvægi þessara uppgötvunar var síðan staðfest með veitingu verðlauna bandarísku Alzheimersamtakanna til Kára Stefánssonar í júlí 2014.
Niðurstöður styðja við lyfjaþróun
Stökkbreytingin, sem hér um ræðir, heftir niðurbrot prótínsins APP (amyloid beta A4 precursor protein) en uppsöfnun á niðurbrotsefnum þess í taugafrumum er talin valda frumudauða sem leiði til Alzheimerssjúkdóms. Árið 2013 birtu vísindamenn ÍE niðurstöður Alzheimersrannsóknar, sem sýndi að stökkbreyting í geni annars prótíns, sem kallast TREM2 (Triggering Receptor Expressed on Myeloid Cells) þrefaldar líkur á Alzheimer (3). TREM2 kemur hugsanlega við sögu þegar þegar líkaminn fjarlægir niðurbrotsefni APP prótínsins úr heilavef. Árið 2015 birtu vísindamenn ÍE niðurstöður sem sýna að stökkbreytingar í ABCA7 geninu,sem líka hefur áhrif á niðurbrotsferli APP proteinsins, tvöfalda líkur á Alzheimer (4). Hér eru því á ferðinni önnur álitleg lyfjamörk fyrir þróun Alzheimerlyfja.
Greinar, sem vísað er í:
Meira um Alzheimersjúkdóminn
(Yfirfarið í desember 2016)
HEIMILDAMYND UM ALZHEIMER
FRÆÐSLUFUNDUR UM ALZHEIMER
Í október 2014 hélt Íslensk erfðagreining opinn fræðslufund um erfðir Alzheimersjúkdómsins í samráði við Alzheimersamtökin. Fundurinn var mjög vel sóttur og hlýddi hátt á fimmta hundrað áheyrenda á Jón Snædal og Kára Stefánsson skýra frá rannsóknum ÍE og samstarfsaðila. Í lok fundarins svöruðu þeir Jón og Kári spurningum fundarmanna.
Jón Snædal: Alzheimersjúkdómurinn
Kári Stefánsson: Erfðafræði og Alzheimer
Spurningar og svör