LUNGAKRABBAMEIN
Lungnakrabbamein (lung cancer) er næst algengasta krabbameinið á Íslandi og algengasta dánarorsök af völdum krabbameins. Árlega greinast um 130 einstaklingar með sjúkdóminn hér á landi og er kynjahlutafallið nokkuð jafnt sem er ólíkt flestum öðrum löndum þar sem sjúkdómurinn er mun algengari meðal karla en kvenna (www.krabbameinsskra.is).
Áhættuþættir
Tóbaksreykingar eru lang stærsti áhættuþáttur krabbameins í lungum en talið er að reykingar orsaki um 90% tilfella sjúkdómsins hjá körlum og 80% tilfella hjá konum. Áhætta á lungnakrabbameini er mjög háð því hversu lengi og hve mikið einstaklingur hefur reykt og minnkar með tímanum ef reykingum er hætt (1).
Erfðaþættir skipta einnig máli í lungnakrabbameini en rannsóknir sýna að nánir ættingar lungnakrabbameinssjúklinga eru í aukinni áhættu á að fá sjúkdóminn (2). Þá fá einungis um 15% reykingamanna krabbamein í lungu sem einnig bendir til að einstaklingar séu misnæmir fyrir eituráhrifum tóbaksreyks.
Að lokum má nefna að ýmis efni sem notuð eru í iðnaði, s.s. asbest, arsenik, vinylklóríð ofl. geta aukið líkur á lungnakrabbameini.
Vefjagerð hefur áhrif á meðferð og horfur
Lungnakrabbameinum er skipt í fjóra vefjafræðilega flokka eftir því í hvaða frumum meinið á uppruna sinn. Þessir flokkar eru flöguþekjukrabbamein, kirtilkrabbamein, smáfrumukrabbamein og stórfrumukrabbamein. Allir flokkarnir tengjast reykingum en þó kirtilkrabbameinið síst. Meðferð og horfur ráðast að hluta af vefjagerð æxlisins, t.d. vaxa smáfrumukrabbamein mun hraðar en aðrar tegundir lungnakrabbameins en eru jafnframt næmari fyrir lyfjameðferð. Lungnakrabbamein geta myndað meinvörp hvar sem er en algengast er að þau dreifi sér í lungnavef, eitla, lifur, bein og heila (3).
Rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar
Íslensk erfðagreining (ÍE) hefur unnið að rannsóknum á erfðum lungnakrabbameins frá árinu 1999 í samstarfi við Stein Jónsson, yfirlækni og sérfræðing í lungnalækningum, Tómas Guðbjartsson, yfirlækni og prófessor í skurðlækningum, og fleiri sérfræðinga sem koma að greiningu og meðferð sjúkdómsins. Ríflega 1.700 einstaklingar sem greinst hafa með lungnakrabbamein hafa tekið þátt í rannsóknunum og hafa niðurstöðurnar birst í vísindagreinum á alþjóðavettvangi (4-10).
Niðurstöður rannsókna ÍE hafa leitt í ljós að marktæk tengsl eru milli lungnakrabbameins og breytinga í genum, sem stjórna framleiðslu nikótínviðtaka (4-6). Einstaklingar sem hafa slíkar breytingar eru líklegri til að reykja meira en þeir sem ekki hafa breytingarnar og eru þar með í aukinni áhættu á að þróa lungnakrabbamein. ÍE hefur einnig fundið fleiri breytingar, sem tengjast beinni áhættu á lungnakrabbameini (7-10).
BRCA 2 genið; krabbameinsáhætta í lungum og brjóstum
Í samstarfi við erlenda samstarfsaðila, hefur ÍE einnig fundið erfðabreytingar í BRCA2 geninu sem tengist aukinni áhættu á lungnakrabbameini (9). Þessi erfðafræðilega áhætta bætist við áhættuna sem reykingarnar einar sér valda þannig að reykingamenn sem bera þessa breytingu í BRCA2 eru í nær tvöfaldri áhættu á að fá lungnakrabbamein miðað við reykingamenn sem ekki hafa hann. Áður var þekkt að stökkbreytingar í BRCA2 tengjast verulega aukinni áhættu á brjóstakrabbameini en engin tengsl höfðu verið fundin milli BRCA2 og lungnakrabbameins.
Öruggasta leiðin til að fá ekki lungnakrabbamein er að reykja ekki. Upplýsingar um erfðafræðilega áhættu á lungnakrabbameini geta hins vegar nýst til þess að finna reykingamenn eða fyrrum reykingamenn sem eru í mestri áhættu á að fá lungnakrabbamein og skima fyrir sjúkdómnum meðal þeirra.
Greinar sem vísað er í:
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/10926586
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/15613665
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/?term=Rom+WN%2C+Hay+JG%2C+Lee
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18385739
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20418888
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/26952864
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/19151717
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/21303977
- http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/24880342
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/27197191
Meira um lungnakrabbamein:
http://krabbameinsskra.is/?icd=C33-C34
http://www.lungnakrabbamein.is/
(Yfirfarið í nóvember 2016)
Steinn Jónsson – Lungnakrabbamein – Reykingar og erfðir.
Þórunn Rafnar – Lungnakrabbamein og erfðarannsóknir.
Þórunn Rafnar – Lungnakrabbamein og BRCA2 genið.