Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu, dótturfélagi Amgen, í samvinnu við Landspítala háskólasjúkrahús, hafa fundið þrjátíu erfðabreytileika sem hafa áhrif rúmmál heilans.
Þessari rannsókn var nýlega lýst í tímaritinu Brain Communications. Vísindamennirnir beittu víðtækri erfðamengisskimun til að leita breytileika með fylgni við rúmmál heila og tvöfaldaði skimunin fjölda slíkra breytileika og veitti nýja innsýn í líffræðina sem þar býr að baki.
Fylgni fannst á milli breytileikanna og rúmmáls ákveðinna heilasvæða, menntunarstigs (educational attainment), taugaþroskaraskanna og taugasjúkdóma. Einstaklingar með Parkinsons sjúkdóm hafa stærri heila og einstaklingar með ADHD minni heila, en þeir sem ekki hafa þessa breytileika.
Vísindamennirnir sýndu fram á með mendelsku slembivali að breytileikar, sem stuðla að auknu rúmmáli heila, stuðla beint að Parkinsons sjúkdómi, og minnka líkur á ADHD. Niðurstöður annarra sem einnig hafa beitt mendelsku slembivali hafa bent til marktækra áhrifa breytileika, sem hafa áhrif á námsárangur, á Parkison sjúkdóminn. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að aukið heilarúmmál sé líklegri skýring á aukinni áhættu á Parkinson sjúkdómi en að rekja megi hana til menntunar.