Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólk þeirra birti nýlega rannsókn í Nature Communications sem lýsir erfðabreytileikum sem hafa áhrif á magn IgG undirflokka í blóði. Vonir standa til að niðurstöður rannsóknarinnar geti nýst við framleiðslu á betri einstofna mótefnum í meðferðarskyni.
Immunoglobulin G (IgG) er aðal ísótýpa mótefna í blóði manna. IgG hefur fjóra undirflokka (IgG1 til IgG4), sem er skráð fyrir af mismunandi genum á þungu keðju Ig lókusnum (IGH). Fyrri rannsóknir á erfðafræði IgG undirflokka hafa einblínt á ávkeðnar amínósýru breytingar í IGHG1-4 genunum (almennt kallaðar allótýpur) og helmingur þeirra erfðabreytileika sem fundust í þessari rannsókn voru á IGH lókusnum. IGH lókusinn er hins vegar meðal flóknustu og margbreytilegustu svæða í erfðamengi mannsins og þvi hefur reynst erfitt að rannsaka þetta svæði með hefðbundnum aðferðum víðtækra erfðamengisleita (GWAS).
Til að skilja tengslin milli áður skilgreindra IgG allótýpa og erfðabreytileika sem fundust í þessari rannsókn notuðu vísindamennirnir fösuð haplótýpu gögn til að skilgreina IgG allótýpurnar í raðgreiningargögnunum og báru saman tengsl IgG undirflokka við allótýpur annars vegar og við einstaka erfðabreytileika sem fundust í rannsókninni hinsvegar.
Í ljós kom að það var sterk fylgni milli sumra þeirra erfðabreytileika sem höfðu mest áhrif á magn IgG undirflokka og áður þekktra allótýpa. Sterkustu tengslin voru milli G1m(f), G2m(n) og G3m(b*) allótýpa og samsvarandi IgG1, IgG2 og IgG3 undirflokka. Einnig fundust aðrir erfðabreytileikar á IGH lókusnum sem höfðu áhrif á magn undirflokka en voru ótengdir allótýpum.
Í greininni er einnig lýst tengslum milli magns IgG undirflokka og erfðabreytileika í genum sem skrá fyrir Fcγ viðtaka (FCGR), á HLA svæðinu og tveggja lókusa, á 16p11.2 (ITGAX) og 17q21.1 (IKZF3, ZPBPs, GSDMB, ORMDL3), sem einungis höfðu áhrif á IgG4. Niðurstöður greinarinnar veita nýja innsýn inn í þá líffræðilegu ferla sem stjórna magni IgG undirflokka í blóði sem geta aukið skilning á mótefnamiðluðu ónæmissvari, og nýst við framleiðslu á betri einstofna mótefnum í meðferðarskyni.