Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa fundið fyrstu erfðabreytuna sem hefur áhrif á hversu djúp eða há röddin er. Rannsóknin birtist í vísindaritinu Science Advances í dag.

Talað mál er eitt af mikilvægustu sérkennum fólks en afar lítið er vitað um erfðir raddar og tals. Rannsóknin byggist á upptökum af tali um 13.000 Íslendinga sem tóku þátt í heilsurannsókn Íslenskrar erfðagreiningar. Um er að ræða einstakt gagnasafn og fyrstu rannsókn sinnar tegundar.

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Rósa S. Gísladóttir fyrsti höfundur greinarinnar í Science Advances.

Rannsóknin leiddi í ljós að erfðabreyta í geninu ABCC9 hefur áhrif á tónhæð raddarinnar. Athyglisvert er að erfðabreytan sem fannst í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar hefur áhrif á röddina í körlum og konum óháð líkamsstærð. Sama erfðabreyta hefur áhrif á hjarta og æðakerfi og undirstrikar samband tónhæðar og líkamlegrar heilsu.

Í rannsókninni voru einnig skoðuð merki sem endurspegla einstaklingsmun í framburði sérhljóða. Þekkt er að framburður sérhljóða dregur dám af málsamfélaginu en þrátt fyrir það reyndust sérhljóðamerkin að einhverju leyti arfgeng. Líklegt er að áhrif erfða á einstaklingsmun í framburði sérhljóða sé í gegnum breytileika á uppbyggingu og lögun talfæranna.

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa nýju ljósi á einstaklingsmun í rödd og tali og efla skilning á áhrifum erfða þar á.

Sjá einnig myndband hér fyrir neðan:

Deila!