Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar fóru fyrir stórri alþjóðlegri rannsókn á erfðum Alzheimer sjúkdóms. Þar fannst fyrsta stökkbreytingin með sterkan víkjandi þátt sem stóreykur líkurnar á Alzheimer sjúkdómi.

Hreinn Stefansson, er vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og fyrsti höfundur á greininni.

Grein um rannsóknina birtist í New England Journal of Medicine í dag. Í rannsókninni, “Homozygosity for a missense variant in R47H in TREM2 and the Risk of Alzheimer’s Disease”. greindi hópur alþjóðlegra vísindamanna undir forystu Íslenskrar erfðagreiningar, sem er dótturfyrirtæki Amgen, erfðafræðileg gögn frá 24,808 einstaklingum með Alzheimer sjúkdóm og 1,165,514 einstaklingum úr viðmiðunarhópi. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að einstaklingar sem eru arfhreinir fyrir erfðabreytileika í TREM2 erfðavísinum, R47H, eru í stóraukinni áhættu að greinast með Alzheimer sjúkdóm (odds ratio, 97.1; 95% CI, 23.5 to 401.1). Auk þess eru einstaklingar sem eru arfblendnir fyrir tveimur erfðabreytileikum í TREM2 (R47H og R62H) í aukinni áhættu (odds ratio, 10.0; 95% CI, 4.2 to 23.9).

Árið 2013 sýndi Íslensk erfðagreining fyrst að það er aukin áhætta fyrir þá sem eru arfblendnir fyrir R47H í TREM2 að fá Alzheimer sjúkdóm (odds ratio, 2.92; 95% CI, 2.09 to 4.09; P=3.42×10−10). Í framhaldi af þeirri vinnu hafa hafa lyfjafyrirtæki þróað áhrifsbindla (agonista) sem auka virkni TREM2. Þessi lyf eru nú komin í klínískar rannsóknir.

Þar sem arfhreinir einstaklingarnir fyrir R47H í TREM2 eru í mjög mikilli áhættu að fá Alzheimer sjúkdóm þá er mikilvægt að hefja meðferð snemma ef þau Alzheimer- lyf sem eru í þróun virka á forklínísku skeiði sjúkdómsins, þ.e. skeiði sjúkdóms áður en einkenni hans koma fram.

Þær niðurstöður sem birtust í dag varpa skýrara ljósi á hversu mikilvægar örtróðsfrumur (microglia) eru við að fjarlægja amýlóíð. Stökkbreytingarnar í TREM2 viðtakanum gera það að verkum að örtróðsfrumur bindast veikar við amýlóíð og losa sig síður við amýlóíð í þeim sem bera stökkbreytingar í TREM2 og þá sérstaklega í þeim sem eru arfhreinir fyrir slíkum stökkbreytingum.

Deila!