Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) og samstarfsfólk þeirra hafa fundið erfðabreytileika í LAG3 geninu sem meira en þrefaldar áhættuna á því að fá sjálfsónæmissjúkdóm í skjaldkirtil. Grein um rannsóknina birtist í Nature Communications. Erfðabreytileikinn hefur þýðingarmikil áhrif á bæði genatjáningu og magn prótínafurðar gensins, og hefur þannig sambærileg áhrif og krabbameinslyf sem hemja LAG-3 viðtakann.
Sjálfsónæmi í skjaldkirtli er algengasti sjálfsónæmissjúkdómurinn, en fimm prósent fólks fær hann einhvern tímann á lífsleiðinni. Sjúkdómurinn lýsir sér oftast í vanvirkum skjaldkirtli en stundum í ofvirkum skjaldkirtli, og leiðir gjarnan til ævilangrar meðferðar með skjaldkirtilshormóni.
Í rannsókninni voru arfgerðargögn frá ÍE, Bandaríkjunum og finnska og breska lífsýnabankanum skoðuð og rúmlega 110 þúsund einstaklingar með sjálfsónæmi í skjaldkirtli bornir saman við 1,1 miljón einstaklinga án slíkrar greiningar, með víðtækri erfðamengisrannsókn.
Alls fundust 290 erfðabreytileikar sem tengjast sjúkdómnum, þar af 115 sem ekki var vitað af áður. Tveir þessara erfðabreytileika auka áhættuna mest en þeir eru í geninu sem tjáir LAG-3 viðtakann sem er lífmark eins af þeim lyfjum sem ræsa ónæmiskerfið gegn krabbameini, svokölluðum varðstöðvahemlum (checkpoint inhibitors). Þessir erfðabreytileikar finnast bara á Íslandi og í Finnlandi, og sýna styrk þess að rannsaka þjóðir sem hafa áður verið einangraðar, til að finna sjaldgæfa erfðabreytileika sem tengjast mikillli sjúkdómshættu.
Íslenski erfðabreytileikinn þrefaldar áhættu á sjálfsónæmi í skjaldkirtli. Hann býr til nýjan startkóða fyrir próteintjáningu, og leiðir til minni getu til að tjá LAG3 genið í ónæmisfrumum. Þeir sem eru með þennan erfðabreytileika eru með helmingi lægri styrk af LAG-3 próteininu í blóði samanborið við þá sem ekki hafa hann. Þrír einstaklingar reyndust vera arfhreinir fyrir erfðabreytileikann og þeir eru allir með sjálfsónæmi í skjaldkirtli, og einn þeirra er einnig með tvo aðra sjálfsfónæmissjúkdóma, vitiligo og týpu 1 sykursýki. Erfðabreytileikinn reyndist fimmfalda áhættuna á vitiligo, en bæði vitiligo og vanvirkur skjaldkirtill eru mögulegar aukaverkanir lyfja sem hemja LAG-3. Þegar slík lyf leysa úr læðingi ónæmisherferð gegn krabbameini getur ónæmiskerfið ráðist á eigin vefi líkt og sjálfónæmissjúkdómar gera. Þannig eru áhrif þessa erfðabreytileika sambærileg og slíkra lyfja.