Forseti Íslands afhenti Kára Stefánssyni lækni og forstjóra íslenskrar erfðagreiningar heiðursverðlaun úr Ásusjóði, Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright við athöfn í Þjóðminjasafninu,
Vísindafélag Íslendinga gætir sjóðsins og bauð til hátíðlegrar athafnar í tilefni verðlaunaafhendingarinnar.
Kári Stefánsson tekur við verðlaununum af Guðna Th. Jóhannessyni í Þjóðminjasafni Íslands.
Verðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt íslenskum vísindamanni, sem náð hefur framúrskarandi árangri á sérsviði sínu í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að Kári Stefánsson hafi unnið brautryðjendastarf á heimsmælikvarða. Með erfðarannsóknum hafi fundist erfðalykill að áhættuþáttum fyrir tugi algengra sjúkdóma allt frá hjarta- og æðasjúkdómum til krabbameina.