RANNSÓKNIR

 

Tilgangur rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) er að leita skýringa á mannlegu eðli og orsökum sjúkdóma með rannsóknum á erfðaefni okkar. Á rúmum einum og hálfum áratug hefur fyrirtækið birt yfir fjögur hundruð vísindagreinar sem vísa veginn við leitina að orsökum sjúkdóma.

Grundvöllurinn að hinum góða árangri fyrirtækisins er stuðningur og þátttaka almennings í starfsemi þess og gott samstarf við Háskóla Íslands og heilbrigðisstofnanir landsins. Vitneskja þjóðarinnar um sögu sína, ættir og uppruna gefur síðan ÍE einstaka möguleika til að vinna mikilvægar upplýsingar úr þessum efnivið. Þannig hefur Ísland tekið forystu í rannsóknum á erfðafræði mannsins.

Þegar erfðaþáttur finnst með marktæk tengsl við tiltekinn sjúkdóm er reynt að skýra orsakasamhengið með frekar athugunum. Þannig er leitað nýrra úrræða til greiningar, fyrirbyggjandi aðgerða og meðferðar.

Sjúklingahópar eru valdir af læknum og starfsfólki heilbrigðisstofnana sem ÍE er í samstarfi við. Til samanburðar eru notuð gögn frá þúsundum Íslendinga hafa skráð sig og lagt fram lífsýni til þátttöku í rannsóknum fyrirtækisins.

Öll sýni í lífsýnasafni ÍE eru í læstum geymslum í höfuðstöðvum fyrirtækisins undir strangri aðgangsstýringu. Öll gögn í vörslu ÍE eru varin með öflugustu öryggiskerfum sem völ er á hverju sinni. Vísindamenn og aðrir starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu varðandi allar veittar upplýsingar og takmarka útbreiðslu þeirra. Rannsóknafólk ÍE á engin samskipti við þátttakendur í verkefnum. Þau eru í höndum heibrigðisstofnananna og starfsfólks Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna, sem tekur á móti sýnum og þátttökugögnum.

Kennitölur eru dulkóðaðar og kóðunarkerfið er samþykkt af Persónuvernd og í umsjá fulltrúa hennar. Engin persónuauðkenni eru sett á sýni eða upplýsingar sem send eru Íslenskri erfðagreiningu og því er eingöngu unnið með ópersónugreinanleg gögn innan veggja fyrirtækisins.

SAMSTARF

Íslensk erfðagreining vinnur náið með læknum og starfsfólki fjölda stofnana. Þar á meðal eru Háskóli Íslands, Landspítali Háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Læknasetrið, Krabbameinsskrá, SÁÁ og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Íslensk erfðagreining hefur einnig unnið með fjölmörgum samtökum sjúklinga á Íslandi. Þar má nefna Parkinsonsamtökin á Íslandi, Félag lesblindra, M.S. Félagið, Hjartaheill, Samtök sykursjúkra, Tourette samtökin og  Alzheimersamtökin.

VÍSINDAGREINAR

Greinar frá Íslenskri erfðagreiningu birtast í helstu vísindatímaritum heims í erfðafræði, svo sem Nature, Nature Genetics, og New England Journal of Medicine.

VALDAR VÍSINDAGREINAR

MEÐAL ÁHRIFAMESTU VÍSINDAMANNA SAMTÍMANS

SJÚKDÓMAR

Fyrirtækið hefur fundið erfðabreytileika sem tengjast krabbameinum, tauga- og geðsjúkdómum, hjarta- og æðasjúkdómum og ýmsum öðrum sjúkdómum.

LISTI YFIR SJÚKDÓMA

deCODE genetics logo
Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna logo
Íslendingabók logo