Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa fundið fylgni á milli sjaldgæfra breytileika í tveimur genum og áhættu á geðhvörfum. Grein um rannsóknina birtist í Nature Genetics í dag.

Geðhvörf einkennast af miklum sveiflum í lund, oflætisástandi og yfirleitt einnig þunglyndisköstum. Þau eru mjög arfgeng og eru alvarleg geðröskun, og henni fylgir verulega aukin áhætta á sjálfsvígum sé hún ekki meðhöndluð. Það er brýn þörf á betri lyfjum til meðferðar á geðhvörfum, því flestum þekktum geðstillandi lyfjum fylgja erfiðar aukaverkanir.
Miklar framfarir hafa orðið á undanförnum 15 árum í erfðafræði geðraskana, einkum með tilkomu nýrra aðferða, svo sem, víðtækrar erfðamengisleitar, og nú eru þekktir mörg hundruð algengir erfðabreytileikar sem tengdir hafa verið áhættu á geðröskunum, meðal annars, geðhvörfum. Þetta eru yfirleitt algengir breytileikar, þar sem hver og einn breytileiki eykur áhættu á geðhvörfum einungis lítillega, en sé tekið tillit til þeirra allra í einu er nú orðið hægt að skýra töluverðan hluta geðraskana í samfélaginu. Breytileikar sem hafa veruleg áhrif á virkni gena og afurða þeirra eru hins vegar yfirleitt sjaldgæfir, en vegna mikilla áhrifa þeirra á eiginleika manna, m.a. áhættu á sjúkdómum, geta þeir gefið miklar upplýsingar um þau líffræðilegu ferli sem að baki búa.

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ásamt Þorgeiri Þorgeirssyni og Vinicius Tragante sem eru höfundar á greininni.

Til þess að beisla upplýsingarnar sem slíkir breytileikar búa yfir, gerðu vísindamennirnir álagsgreiningu fyrir geðhvörf. Þeor tíndu til alla sjaldgæfa breytileika sem líklegir þóttu til þess að eyða virkni hvers gens fyrir sig í raðgreiningargögnum frá Íslandi og breska lífsýnabankanum (UK biobank), og leituðu þeirra gena sem sýndu fylgni milli samanlagðra áhrifa slíkra breytileika og áhættu á geðhvörfum. Einnig var notast við niðurstöður svipaðra rannsókna á vegum alþjóðlegs rannsóknarverkefnis sem nýlega stóð fyrir slíkri álagsprófun fyrir geðhvörf, Bipolar Exomes, til staðfestingar niðurstaðna og frekari rannsókna. Rannsóknin leiddi í ljós áður óþekkta fylgni milli breytileika í tveimur genum (HECTD2 og AKAP11) og geðhvarfa. Breytileikar í AKAP11 höfðu áður verið tengdir geðrofi og geðklofa
AKAP11 er kóðinn fyrir akkerisprótín, sem hefur meðal annars, það hlutverk að skorða stjórnhluta prótein kínasa A, og þannig draga það ensím að ákveðnum frumusvæðum. Í HECTD2 býr kóðinn fyrir E3 ubiquitin lígasa, sem er tiltektarprótín sem merkir með endurteknum hætti ákveðin protein með ubiquitin hópi, sem markar prótínin til eyðileggingar í þartilgerðum frumuhluta, meltikorni, (próteasómi). Afurðir beggja þessara gena koma að frumuferlum sem einnig fela í sér þátttöku þriðja prótínsins, GSK3β. Sýnt hefur verið fram á að liþíum hindrar starf þess próteins, en liþíum er einmitt þekkt fyrir að milda geðsveiflur og liþíumsölt af ýmsu tagi þykja hvað áhrifaríkust til lyfjameðferðar við geðhvörfum. Niðurstöður rannsóknarinnar leiða líkum að því að röskun á ákveðnum frumuferlum tengist áhættu á geðhvörfum og benda á GSK3β og afurðir HECTD2 og AKAP11 sem áhugaverð lyfjamörk.

Deila!