Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsaðilar þeirra hafa fundið sjaldgæfan erfðabreytileika í geninu FRS3 sem tengist lækkun á líkamsþyngdarstuðli (BMI) og verndar gegn offitu. Þessi erfðabreytileiki fannst í víðtækri erfðamengisleit sem tók til um 2 milljóna einstaklinga af ólíkum uppruna. Grein um rannsóknina birtist í Nature Communications undir heitinu „Missense variants in FRS3 affect body mass index in populations of diverse ancestries“.

Offita er eitt stærsta heilsufarsvandamál nútímans. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni voru 2,5 milljarðar (43%) fullorðinna einstaklinga á heimsvísu í yfirþyngd og þar af 890 milljónir (16% allra fullorðinna) með offitu árið 2022. Offita hefur einnig bein tengsl við aðra sjúkdóma, svo sem sykursýki af tegund 2 og ýmsa hjarta-og æðasjúkdóma. Þörf er á fjölbreyttari meðferðarúrræðum til að meðhöndla offitu á áhrifaríkan hátt.
Í grein Íslenskrar erfðagreiningar er lýst sjaldgæfum erfðabreytileika í geninu FRS3 sem finnst einungis meðal Finna og tengist lækkun á BMI um 1,1 kg/m2, sem samsvarar um 3,5 kg þyngdartapi fyrir meðalháan einstakling. Arfberar eru einnig 34% ólíklegri til að þróa með sér offitu en þeir sem ekki bera erfðabreytileikann. Þessi erfðabreytileiki veldur því að einni amínósýru í FRS3 próteininu er skipt út fyrir aðra og er þessi amínósýrubreyting talin auka virkni próteinsins. FRS3 próteinið er hluti af BDNF-TrkB boðefnaferli í undirstúku heila sem tekur þátt í stjórn orkubúskapar. Aukin virkni þessa boðefnaferils minnkar matarlyst og fæðuinntöku sem er einn lykilþáttur í meðhöndlun offitu.