Skjaldkirtilskrabbamein

Krabbamein í skjaldkirtli (thyroid cancer) er algengast af innkirtlakrabbameinum. Árlega greinast um 30 einstaklingar með sjúkdóminn hér á landi og er hann algengari í konum en þær eru rúmlega tveir þriðjungar af þessum hópi. Lífshorfur einstaklinga með sjúkdóminn eru almennt góðar en yfir 90% þeirra er á lífi fimm árum eftir greiningu (www.krabbameinsskra.is).

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir krabbameins í skjaldkirtli á Íslandi eru kyn, aldur og erfðaþættir. Einnig er vitað að þar sem jónandi geislun og joðskortur eru til staðar er aukin tíðni á meininu. Líkt og með flest önnur krabbamein þá eykst áhætta með aldri, en meðalaldur við greiningu skjaldkirtilskrabbameins hérlendis er 61 ár hjá körlum en 52 ár hjá konum (meðaltöl fyrir árin 2008-2014). Erfðaþættir gegna umtalsverðu hlutverki en rannsóknir sýna að nánir ættingjar (einkum systkin og börn) sjúklinga með sjúkdóminn eru í aukinni áhættu á að fá hann (1).

Meðferð og horfur

Meðferð og horfur sjúklinga með skjaldkirtilskrabbamein ráðast einkum af því hversu snemma meinið greinist. Engin skipulögð hópleit að sjúkdómnum er í gangi á Íslandi. Viðvarandi hæsi, hósti, eða vandræði við að kyngja geta verið vísbending um stækkaðan skjaldkirtil. Skoðun hjá lækni og þreifun á hálsi þar sem skjaldkirtillinn er staðsettur er einföld aðferð til að kanna hvort um stækkun eða hnúðamyndun sé að ræða á kirtlinum. Ástunga og vefjaskoðun skæru síðan úr um hvort stækkunin sé góð- eða illkynja.

Rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar

Íslensk erfðagreining (ÍE), í samstarfi við Krabbameinsskrá og ýmsa sérfræðinga á Landspítala, hefur um árabil unnið að rannsóknum á erfðum skjaldkirtilskrabbameins. Um það bil 750 einstaklingar sem greinst hafa með sjúkdóminn hafa tekið þátt í þessum rannsóknum frá upphafi.

Einnig hefur ÍE verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi, bæði með evrópskum- og amerískum rannsóknarhópum. Þetta samtarf hefur tryggt að uppgötvanir gerðar á Íslandi hafa verið sannreyndar fljótt og örugglega erlendis og þar með hefur verið sýnt fram á mikilvægi þeirra.

Síðastliðin ár hafa fundist nokkrir erfðabreytileikar sem hver og einn veldur vægri aukningu í áhættu á krabbameini í skjaldkirtli. Lítill hluti fólks ber nokkra þessara breytileika í sínu erfðamengi og er talið að sameiginleg áhrif þeirra geti valdið umtalsverðri áhættuaukningu.

Niðurstöður rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar hafa gefið skýrari mynd af hlutverki erfðaþátta í skjaldkirtilskrabbameini á Íslandi og hafa þær leitt til uppgötvunar á fimm erfðabreytileikum sem tengjast aukinni áhættu á sjúkdómnum og hafa niðurstöðurnar verið birtar í alþjóðlegum vísindaritum (2-3). Þessir erfðaþættir eru staðsettir á litningum 2, 8, 9 og 14. Erfðaþættirnir á litningum 9 og 14 eru staðsettir í nánd við gen sem taka þátt í að stýra þroskun skjaldkirtilsins.

Markmið rannsókna sem þessara er að auka skilning á eðli sjúkdómsins og þar með bæta greiningu og meðferð hans. Með auknum fjölda erfðabreytileika sem fundist hafa á síðustu árum er að verða mögulegt að benda á þá einstaklinga sem eru í mestri áhættu á að fá sjúkdóminn. Notkun þessara upplýsinga í viðbót við þær greiningaraðferðir sem eru í notkun í dag eiga eftir að bæta horfur þeirra sem greinast með sjúkdóminn í framtíðinni. Hinsvegar er enn verulegur hluti arfgengrar áhættu óútskýrður og því er nauðsynlegt að halda rannsóknarstarfi sem þessu áfram af fullum krafti.

Greinar sem vísað er í:

Meira um skjaldkirtilskrabbamein:

http://www.krabbameinsskra.is/?icd=C73

http://www.krabbameinsskra.is/resources/pdf/krabbamein/krabbamein_a_islandi_2012-krabbamein_i_skjaldkirtli.pdf

(Yfirfarið í nóvember 2016)

deCODE genetics logo
Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna logo
Íslendingabók logo